Vetrarsólstöður – Ljósið fæðist í myrkrinu

10417695_747119042008769_1919231316460861655_nÁ hverju ári þurfum við að mæta myrkrinu og á hverju ári fylgjumst við með því hvernig ljósið fæðist á ný um leið og sólin fer aftur að hækka á lofti. Vetrarsólstöður eru 21. desember og þá er lengsta nótt ársins.  Orðið sólstöður vísar til þess að sólin stendur í stað. Hún hættir að lækka á lofti, fer síðan að hækka aftur hægt og bítandi og ljósið sigrar myrkrið.

Vetrarsólstöður eru á kaldasta tíma ársins. Í gegnum söguna hefur veturinn verið tími til að leggjast inn í hýði, tími kyrrðar, depurðar, hungurs, svefns, myrkurs og kulda. Á vetrarsólstöðum fögnuðu mennirnir endurkomu sólarinnar sem lífgjafa  og vonargjafa mitt í öllum kuldanum og myrkrinu. Í dag fögnum við fæðingu frelsarans og ljóssins í hjartanu. Í heiðni var þessi hátíð líka kölluð jól. Freyr var guð kærleika og frjósemi, guð árs og friðar. Óðinn átti sér mörg nöfn, þeirra á meðal voru jólafaðir og jólnir. Óðinn stendur fyrir visku og innri styrk, en hann var líka meistari hinna dauðu- drauganna.

Á vetrarsólstöðum og jólum erum við að takast á við myrkrið og tendra ljósið innra með okkur. Til þess þurfum við að horfast í augu við skuggahliðarnar okkar og draugana í lífi okkar. Mér finnst þessi tími ytra myrkurs kalla mig inn á við. Ég hugleiði daglega flesta daga ársins en á þessum árstíma verður það enn auðveldara og mér finnst ég vera nær kyrrðinni. En líka einmitt vegna alls annríkisins í lífi mínu og í kringum mig á þessum tíma þá finnst mér það alveg nauðsynlegt að hugleiða til að halda einbeitingu í verkefnunum og til að halda sjálfri mér í jafnvægi.

Þetta er góður tími til að skoða árið sem er að líða, velta upp hvað við eigum eftir óklárað – verkefni, samskipti, áramótaheit síðustu áramóta og einnig til að undirbúa nýja árið. Þetta er líka tími til að njóta þess góða sem myrkrið færir okkur – kyrrð, frið og endurnýjun.

Lesa meira hér

Comments are closed.