Þú ert það sem þú hugsar

Þegar sólin skín eins og hún er búin að gera undanfarið hjá okkur hér í Reykjavík – verð ég alltaf aðeins bjartsýnni.  Ég fer að sjá ýmislegt bæði innra með mér og í kringum mig – sem áður fór fram hjá mér. Kannski er það lika vegna þess að gönguferðunum fer að fjölga og ég  fæ aðeins meiri tíma og næði með sjálfri mér. Það verður líka auðveldara að vakna og fara í jóga á morgnana.  Ég finn að það þarf ekki að vera langur tími – kannski bara nokkrar mínútur – það sem ég geri á hverjum morgni – ein lítil öndunaræfing eða stutt kyrrðarstund með sjálfri mér – þá verður dagurinn allur annar.  Ég verð einbeittari og ég finn meira til þakklætis fyrir það sem ég hef af því ég gef mér tíma til að finna fyrir því.

Jógarnir segja að hugsanir okkar hafi áhrif á alla okkar líðan – og þar af leiðandi á samskipti okkar og daglegt líf.  Hormónaflæðið okkar og rýmið innra með okkur – verður fyrir miklum áhrifum af hugsunum okkar og daglegri upplifun á okkur sjálfum.  Þess vegna er svo mikilvægt að við ræktum þetta innra rými eins og garðinn okkar. Leyfum ekki neikvæðni og innri spennu að safnast upp þarna inni fyrir. Þá hættum við að njóta samvista við okkur sjálf og förum að flýja í alls kyns afþreyingu. Við förum að leita flóttaleiða frá okkur sjálfum.  Þetta hefur hins vegar þær aukaverkanir að áreitið á okkur verður enn meira og streitan fer að segja til sín. Ef við hins vegar ræktum þennan græna og grösuga garð innra með okkur þá fara að vaxa í honum ótrúlegustu hlutir – sem gefa okkur skjól og gleði –  og getum farið að horfa á það sem er í kringum okkur af opnum huga og njóta þess að eiga samskipti við okkar nánustu og gera alla þessa daglegu hluti í friði og sátt.