Umsagnir jógaiðkenda

Hjartans þakkir fyrir nærandi, kraftmikla og öfluga jógatíma í vetur.
Bettý Gunnarsdóttir

Frábært námskeið með frábærum kennara. Er endurnærð eftir tímana og finn hvað þeir styrkja mig á sál og líkama.
Guðríður Pálmarsdóttir

Þetta er það besta sem hægt er að gefa sjálfum sér. Ég er búin að vera að telja sjálfri mér trú um að ég hafi ekki tíma, en finn að ég VERÐ að gefa mér tíma.
Hallveig Thorlacius

Ég las pistil eftir Guðrúnu Darshan í vor um listina að slaka á. Hún talaði um að djúpt í okkur lægi spenna sem erfitt væri að ná til nema með djúpslökun og hugleiðslu. Þetta kveikti áhugann hjá mér svo ég skráði mig á námskeið hjá henni og fann fljótlega að það átti vel við mig. Jóga nidra hefur ekki bara hjálpað mér að ná meiri slökun og hugarró heldur einnig að byggja upp styrk til að mæta álagi og áreiti. Jóga nidra er líka árangursrík leið til að skerpa á því lífi sem ég vil lifa og leyfa mér að njóta þess til fulls.
Dagur Hilmarsson

Guðrún Darshan kenndi mér að anda almennilega og að hugleiða í rólegheitum – gongspilið hennar fær stressið til að leka úr samanbitnum kjálkum sem liðast í sundur þannig að ég gapi … sem er mjög gott.
Guðrún hefur einstakt lag á að skapa friðsælt og rólegt andrúmsloft í tímunum, með ljúfri röddu og kertum, sem hjálpar manni við að slaka á. Það er ekki bara skoðun mín, heldur hafa aðrir þátttakendur í námskeiðunum haft orð á því sama.
Hún Guðrún þekkir hvað hún er að gera upp á hár, maður finnur greinilega að hún hefur ástríðu fyrir fræðunum. Hún býður upp á eitthvað nýtt í hverjum tíma, æfingarnar eru fjölbreyttar og allt gerir þetta manni ákaflega gott.
Maður kemur yndislega slakur og endurnærður úr tímunum – og jafnvel búinn að uppgötva nýjan og spennandi sannleika um sjálfan sig.
Kær kveðja, Addý (Ásgerður Einarsdóttir)

Það var sú tíð að ég iðkaði jóga reglulega, en svo liðu mörg ár án þess að ég gerði það. Nú í haust mætti ég aftur í kúndalíni – jóga til Guðrúnar og það var eins og að koma heim úr löngu ferðalagi! Það er ótrúlegt hversu fljótt ég kannaðist við jógaiðkandann mig. Guðrún er einstakur jógakennari, hefur tilfinningu fyrir hópnum og einstaklingum innan hans og hagar dagskránni eftir stöðu hópsins. Ég hvet alla til að skoða þennan möguleika á iðkun hollrar hreyfingar sem er reyndar bæði fyrir líkama og sál. Ekki síst hvet ég þau sem hafa ekki stundað jóga um tíma að mæta nú aftur.
Jóhanna Magnúsdóttir, garðyrkjufræðingur

Mér finnst ég léttari og hressari í alla staði siðan ég byrjaði að stunda kundalini jóga – og líður betur. Ég er betri í öxlunum og aftan á hálsinum – ég sit mikið við tölvu og stífna upp í herðunum en er miklu betri í skrokknum síðan ég byrjaði í jóga. Ég hef tileinkað mér þá venju að fara með möntrur í stutta stund á morgnana og á kvöldin – möntrurnar á blaðinu sem þú lést okkur hafa -í 3-4 mínútur og ég fyllist af einhverri vellíðan – það er erfitt að lýsa því. Ég sé mun á litarhaftinu á húðinni og finnst ég verða léttari í skapinu.
Guðbjörg Kristín Kjartansdóttir, skjalavörður 

Kundalini jóga gefur mér þá orku sem til þarf.
Haraldur Flosi Tryggvason

“Ég var mjög ánægð með námskeiðið (Streitulosun – meira jafnvægi). Það var hæfileg blanda af fyrirlestrum og verklegum æfingum.  Mér fannst mjög gott að fá útskýringar fyrir kríunum og hvernig þær eru hugsaðar. Það var líka sterk
upplifun að fara í hugleiðsluna um helgina.  Hópurinn var hæfilega stór og umhverfið mjög notalegt.  Ég hef prófað að fara í jógatíma í líkamsræktarstöðvum en mér finnst þetta vera meira “alvöru”.  Mér finnst þú hafa þekkingu á því sem þú ert að miðla og ég vel hugsað mér að koma aftur á námskeið.”
Guðmunda Gunnlaugsdóttir, kennari

Þegar ég skráði mig á námskeiðið hjá Guðrúnu, yoga nidra slökun var ég búin að prófa þó nokkur námskeið í þessum fræðum. Ég var í sjálfsleit og hjálp eftir innri ró eftir mjög erfitt ár bæði  tilfinningalega og andlega.
Það eru einhverjir töfrar sem leggjast yfir mann á þessu námskeiði, ókunnur hópurinn virkaði samstilltur frá fyrsta tíma og það fer hæfilegur tími í yoga og nægur tími til slökunar (þetta er ekki svona ,,og svo er smá slökun í endann námskeið,,.)
Leidd slökun hjálpaði mér að finna raunverulega fyrir því hvernig ég get stýrt sjálfri mér inn í slökun og ég held að það sé vegna þess að það er nægur tími til æfinganna. Mönturnar eru líka gott leiðarljós sem ég nota þegar ég þarf á innri ró að halda og minna mig á að ég er hluti af stærra samhengi. Mér líður svolítið eins og ég hafi andað í fyrsta sinn í langan tíma og þar sem ég vinn með börnum á grunnskóla aldri m.a. með slökun fyrir börn með kvíða þá hef ég getað nýtt öndunaræfingarnar í starfi mínu með börnunum og það er frábært.
Guðrún býr yfir þessari töfrablöndu með hugarró en staðfestu sem fæ mann til að vilja ná árangri með sjálfan sig, á sínum eigin forsendum. Kærar þakkir fyrir mig.
Íris Arnardóttir – náms og starfsráðgjafi

Það sem hefur komið mér helst á óvart við Ástundun Kundalini jóga er hversu kröftugt og áhrifaríkt það er.
Kriyurnar og hugleiðslurnar hreyfa svo sannarlega við mér. Þær eru margar og mismunandi og áhrifin því breytileg. Mig hefur stundum langað til að gefast upp í æfingunum og hef ekki alveg skilið hversvegna mér hefur liðið svona. Það sem kemur mér á óvart er að þetta er tilfinning sem ég kannst við þegar eitthvað er mér of ögrandi í mínu daglega lífi. Það sem ég veit við það að setja mig inn í heimspeki jógafræðanna, þá er leið í gegnum hverja hindrun og þegar ég finn hvötina til að hörfa, þá er málið að halda áfram og pressan mun hverfa. Eitt skref í einu.  Þetta er leiðin mín til áframhaldandi ástundunar  það gerist ekkert án ástundunar og ég geri þetta á mínum hraða og þessi óþægilega tilfinning sem kemur stundum upp er merki um að eitthvað er að gerast  hef ég uppgötvað, ég er á leið i gegnum hindrunina.
Að ástunda Kundalini jóga  finnst mér vera frábær alhliða leið til þess að styrkja mig sem manneskju í því að takast á við mitt daglega líf. Það er það sem ég hef uppgötvað í Kundalini jóga. Magnað jóga!
Berglind Ásgeirsdóttir, iðjuþjálfi

“Að stunda kundalini jóga er ekki auðveld leið en hún er svo sannarlega þess virði. Ég finn fyrir auknum krafti og betri samskiptum við fólk.”
Sigþrúður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur

“Í kundalinijóga hef ég lært öndunartækni sem breytti heilsufari mínu til mikilla muna. Ég er eins og barn að stíga fyrstu skrefin því bæði er ég að læra að anda upp á nýtt og svo hefur kundalinijóga opnað nýja sýn á lífið og tilveruna þar sem áherslan er jafnt á andlega iðkun sem líkamlegar æfingar. Mér er mikið í mun að gera æfingarnar rétt þannig að þær skili tilætluðum árangri og þar hefur kundalinijógað heldur betur staðist væntingar”
Áslaug Maack Pétursdóttir, skólastjóri

Í fyrra var ég í þeim sporum að jafna mig eftir krabbameinsmeðferð. Vildi finna leið til að liðka líkamann. Ég fann Kundalini jóga og vissulega er líkaminn liðugri. En ég lenti líka í spennandi ferðalagi. Ég ræð ferðahraða sjálf og tek bara hænuskref. Það er mjög áhugavert að kynnast þessum fornu fræðum og prófa á sjálfum sér. Hjá Andartaki er mikil virðing fyrir því að gera hlutina vel. Það er samt líka allt í lagi að brosa og hlæja þegar æfingarnar eru skrítnar. Það er ennþá margt sem mér finnst framandlegt en ég finn að þetta ferðalag gerir mér gott og auðgar líf mitt.
Kær kveðja, Elín G. Helgadóttir

Heimspekin og jógafræðin, æfingarnar, möntrurnar og hugleiðslan hefur gefið mér aukið jafnvægi, gleði, dýpra innsæi,skýran sannleika og innri sem ytri farsæld,
Þóra Hlín Friðriksdóttir

“Hugleiðslurnar hjálpa mér að vera í andlegu jafnvægi. Með því að hugleiða á hverjum degi fer ég leikandi létt í gegnum aðstæður sem hefðu valdið mér kvíða og svefnleysi áður og finn fyrir ákveðnu æðruleysi gagnvart álagi og óvæntum uppákomum.
Með æfingunum er ég meðvitaðri um líkamann. Ég er ánægðari og sáttari með líkamann minn og er meðvitaðri um að það sem ég borða og það sem ég geri sé að gera líkamanum gott.”
Katrín María Magnúsdóttir, skrifstofustjóri og kennari

Kundalini yoga er mjög fjölbreytt og frábær leið til aukinnar sjálfsþekkingar. Hugleiðsla, söngur, áhrifamiklar öndunaræfingar og sadhana hafa reynst mér rosalega vel. Mér finnst ég vera í meira jafnvægi, hæfari til að takast á við streituvaldandi aðstæður og sáttari síðan ég kynntist kundalini yoga. Ég mæli hiklaust með þessu og er viss um að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.
Ragnhildur Eva