Öndun


Að ná tökum á önduninni er grundvöllurinn að því að…

●Auka heilbrigði og lífsorku

●Opna fyrir tilfinningar og sköpunarkraftinn sem í þeim býr

●Stýra tilfinningum

●Þróa einbeitingu

●Auka tilfinningu um að tilheyra og vera hluti af heild

Þegar við verðum meðvituð um öndunina förum við að finna að öndunin snýst ekki bara um líkamlega öndun, heldur líka hinn fínlega þátt öndunar sem fyllir okkur af lífsorku.  Við lærum að brjóta upp þann vana að horfa fram hjá önduninni.  Öndun og hreyfing hennar tengist hreyfingu allra tilfinninga og hugsana.  Öndunin er lykill að því að ná valdi yfir huganum og að því að glíma við streitu og álag.  Margar af þeim hugleiðslum sem kenndar eru í Kundalini jóga ganga út á að ná valdi yfir önduninni.  Ýmist með því að fá okkur til að anda hægar eða halda andanum inni eða úti.  Þetta styrkir lungun, eykur úthald, auk þess að gefa okkur meira vald yfir huga og líkama.  Hugurinn fylgir önduninni.

Kundalini jóga er prana jóga – prana þýðir lífsorka – og notar pranayam (vísindi öndunarinnar) og bandha (lokur líkamans) til að skapa shunya, ástand kyrrðar –(shunya = núll /kyrrð).  Inn í þessa kyrrð plöntum við fræi (bij) eða möntru til að skapa nýtt mynstur verundar.  Það fær kundalini orkuna til að flæða.  Kundalini er eins konar andleg upplyfting.

Grunnurinn að orkumiklu og skapandi lífi býr í önduninni.  Í magni, gæðum og hringrás öndunarinnar.  Öndunin er mælikvarði á það hversu mikla orku við höfum til afnota daglega og hversu mikinn aukaforða við höfum ef neyðarástand skapast.  Öndunin skiptist í grófa og fínlega öndun.  Grófi þátturinn felur í sér inntöku af súrefni og þau efnahvörf sem verða við öndun.  Fínlegi þátturinn er pranan eða lífsorkan sem gefur huga, líkama og vitund okkar orku.

Flestir anda ekki rétt.  Algengt er að fólk andi upp í efra brjóstið.  Af öllu því sem við getum gert til að rækta okkur sjálf er það líklega öflugasta tækið til að þróa með sér æðri vitund og til að auka heilbrigði, lífsorku og tengingu við annað fólk, ef við lærum að anda djúpt og til fulls.

Líkamlega: Streita verður til þegar vöðvaspenna eða hugarspenna getur ekki lengur horfið af sjálfu sér.  Þegar við getum ekki slakað á jafnóðum.  Streita veldur lélegri, grunnri og óreglulegri brjóstöndun og auknum hraða í önduninni, sem aftur leiðir af sér króníska spennu og veikt taugakerfi.  Léleg öndun eykur móttækileika okkar fyrir meiri streitu.  Þetta eykur hættu á sjúkdómum og því að eitt af líkamskerfum okkar gefi sig.

Tilfinningalega: Við geymum spennu í líkamanum í formi brynju.  Rétt öndun sem breytir því smám saman hvernig við öndum eðlislægt losar um þessa brynju.  Um leið og við aukum sveigjanleika líkamans og þenjum út lungun eykst næmni okkar því brynjan þynnist.

Lífsorka: Ef við öndum rétt þá eykur það flæði prönunnar – lífsorkunnar og þegar brynjan minnkar og spenna losnar þá eykst lífsorka okkar að sama skapi.

Tenging við aðra: Þegar lífsorka okkar eykst, þá upplifum við okkur tilfinningalega örugg og líkami okkar styrkist.  Þetta verður til þess að við upplifum meiri tengsl við aðra.