Kundalini Jóga

SJORE_04092014_MG_7424_PPJóga þýðir sameining – hugar, líkama og sálar.

Kundalini jóga er mjög fljótvirkt, eflandi og umbreytandi form af jóga og hentar sérstaklega vel til að vinna gegn streitu og álagi. Kundalini jóga kemur jafnvægi á innkirtlakerfi, taugakerfi og ónæmiskerfi auk þess að styrkja hugann og líkama og kenna okkur að eiga nærandi samband við okkar innri mann og sálina okkar.

Það virkar á marga mismunandi þætti manneskjunnar – bæði líkamlega, huglægt og andlega. Líkamleg upplifun Kundalini jóga getur verið mjög djúp og áhrifin skila sér yfirleitt mjög hratt.

Æfingarnar byggja á hreyfingu sem gerð er í takti við andardráttinn. Þessi taktfasta hreyfing verður smám saman að hugleiðslu ef hún er endurtekin um stund. Æfingarnar eru mjög fjölbreyttar og miða að því að styrkja likamann og koma jafnvægi á innkirtla-, tauga- og ónæmiskerfi.  Hver “kría” eða sería af æfingum hefur auk þess að virka heildrænt á líkama og huga, eitthvert ákveðið markmið, eins og að styrkja miðjuna og viljastyrkinn, opna orkuflæðið í hryggsúlunni eða vinna gegn streitu og styrkja nýru og nýrnahettur.

Hugleiðsla í jóga fjallar um rækt hugans.  Hugurinn er mjög flöktandi og óhaminn í eðli sínu. Ef hann fær að ráða þá verður líf okkar fremur stjórnlaust og þá veljum við ekki upplifun okkar og viðbrögð heldur bregðumst við hugsunarlaust. Kundalini jóga hjálpar okkur að öðlast samband við hugann og eiga þannig heilbrigðara og meðvitaðra samband við okkur sjálf, umhverfi okkar og annað fólk.

Kundalini jóga hefur stundum verið nefnt jóga upplifunar. Þeir sem stunda það reglulega tala um miklar breytingar á líkama og sál og sífellt dýpri upplifun af iðkuninni. Kundalini yoga hjálpar þeim sem eiga annríkt að kyrra hugann og sameina alla hlutana af sjálfum sér. Sem aftur gerir það auðveldara að dvelja í núinu og njóta ANDARTAKSINS.