Fimm sútrur

7036133_lFimm sútrur fyrir öld vatnsberans:

Sútra er þráður – hugmynd til að hugleiða á – sem sett er fram í einni stuttri setningu. Sútrur eru auðveldar að leggja á minnið og varðveita djúpa visku andlegrar visku á einfaldan hátt.

1. Veittu því athygli að hin manneskjan ert þú.

Við getum í raun aðeins séð okkur sjálf speglast í öðrum. Ef við dáumst að annarri  manneskju erum við í raun að horfa á okkur sjálf. Við gætum átt eftir að rækta þessa eiginleika með okkur sjálfum – eða uppgötva þá. Á hinn bóginn ef við dæmum eitthvað í öðrum þá erum við líka að horfa á okkur sjálf. Kannski skuggahlið eða hluta af okkur sjálfum sem við viljum ekki alveg kannast við. Því meira sem við samsömum okkur með egóinu – litla sjálfinu okkar því meira dæmum við – bæði okkur sjálf og aðra. Við getum tileinkað okkur á þessum tímum sem kalla á meiri vitund og vakningu – að taka fulla ábyrgð á upplifun okkar og lifa þann sannleika að við erum ÖLL EITT.

Til íhugunar: prófaðu í einn dag að sjá sjálfa-n þig í öðrum og taka til þín það sem þú dáist að eða dæmir í fari hins.

2. Það er til leið í gegnum allar hindranir.

Það er gefið að þér mun verða ögrað í lífinu svo þú vaxir og haldir áfram að græða það sem er brotið. Enginn fær undan því komist. Daginn sem þú þarft ekki að takast á við neitt verður þú dáin-n.  Allt sem við þurfum að glíma við, alveg sama hvort það er stórt eða smátt hefur lausn eða leið í gegn. Þessi lausn kemur þó ekki þó þú hugsir og hugsir – hún er ekki byggð á rökhugsun. Það virkar ekki að gera lista yfir það sem er með og á móti.

Lausnin kemur upp á yfirborðið í gegnum innsæi þitt. Hvernig veistu muninn á innsæi og hugsunum hugans? Innsæi hefur hlutlausa orku. Það er enginn dómur, ekkert “þú átt að eða verður að” og enginn ótti. Innsæi er sköpunarkrafturinn. Hún er eins og rödd sem hvíslar í eyra þitt.

Til íhugunar: Þegar þú tekst á við erfiðleika í lífi þínu, taktu þér stund til að rifja upp að það er til leið í gegnum allar hindranir. Andaðu hægt og djúpt í nokkrar mínútur og bíddu eftir svarinu. Byrjaðu að nota innsæið og treysta því að þú fáir leiðsögn varðandi næsta skref.

3. Þegar tíminn krefst þess, framkvæmdu, og þá léttir á þrýstingnum

Tíminn eins og við upplifum hann er blekking. Það er engin fortíð eða framtíð – aðeins líðandi stund- núna. Tíminn er bara meðvitund á hreyfingu.

Þessi útvíkkun vitundarinnar er að þrýsta á þig að gera breytingar, að vaxa og þróast á leið sálarinnar þinnar. Það er ekki viturlegt að halda aftur af þessu ferli með því að fresta. Við vitum innst inni hvaða breytingar við þurfum að gera í lífi okkar.

Áhyggjur og streita yfir “hvað ef þetta gerist..” leiðir bara til meiri þjáningar og lömunartilfinningar. Hugurinn heldur áfram að fara með þig í hringi.

TIl íhugunar: Heimurinn snýst um breytingar. Breytingar eru stöðugar svo af hverju ekki að umfaðma þær? Það er kominn tími fyrir þig að gera breytingar í lífi þínu. Taktu fyrsta skrefið, sama hversu smátt það er og þá finnurðu um leið að það léttir á þrýstingnum. Þetta gefur þér aukinn kraft til að halda áfram að vaxa og breytast.

4. Sýndu skilning í gegnum samkennd.  Annars misskilur þú tímana.

Á okkar tímum, stundum nefnd “Öld vatnsberans”, öld uppljómunar, erum við kölluð til þess að stíga út úr þeirri hugsun sem öld fiskanna snérist um – “hvað græði ég á því?” og inn í vatnsberahugsunina: “hvernig getur heildin hagnast á því sem ég geri”?

Samkennd er að læra og framkvæma frá hjartanu. Ef við veljum að dæma eða líta fram hjá þjáningum samferðafólks okkar, þá misskiljum við tímana sem við lifum á. Það er aðeins egóið – litla sjálfið okkar og hugurinn sem halda okkur aðskildum hvort frá öðru og í afneitun á sannleikanum.

Vatnsberaöldin snýst um að sjá og skilja að við erum EITT mannkyn á jörðinni, öll bræður og systur. Við erum hér til að þjóna, lyfta og hjálpa hvort öðru.

Til íhugunar: Leyfðu hjarta þínu að vera opnu í dag í samskiptum þínum við fólk og þegar þú tekst á við verkefni dagsins. Haltu aftur af tilhneigingunni til að fara inn í hugann og í egóið – og upplifa aðskilnað. Ekki gleyma að horfa í augu hinna og sjá sama ljósið sem lifir í okkur öllum.

5. Leyfðu alheiminum að tjá sig í þér. Þá greiðir hann þér leið.  

Allheimurinn er orka á hreyfingu sem sveiflast á ákveðinni tíðni. Við erum annað hvort í samhljómi við heildina eða ekki. Við birtum þessa tíðni í gegnum hugsanir, orð, gerðir, tilfinningar og skynjun. Það sem við sendum út í heiminn kemur aftur til okkar, eins og svifdiskur eða frisbee diskur.

Þegar lífið virðist stöðugt vera að setja hindranir á leið þína og ekkert virðist hreyfast gæti það verið merki um að þú sért ekki í takti við heildina – að þú leyfir ekki alheiminum að tjá sig í þér.  Þegar við erum í samhljómi við alheiminn þá erum við í  hátíðni kærleika, samkenndar og gæsku.

Ein besta leiðin til að flæða með alheiminum er í gegnum iðkun jóga, hugleiðslu og þegar við hugleiðum á eða syngjum möntrur – hljóð sem stilla okkur í samhljóm við hjarta okkar og óendanleikann innra með okkur.

Til íhugunar: Ertu í takti við alheiminn og hjarta þitt í dag? Er eitthvað sem er ekki að hreyfast í lífi þínu í dag? Leyfðu huganum að lyfta sér upp fyrir hugsanir hversdagsins og finna samhljóm við óendanleikann innra með þér. Tengdu inn á hærri tíðni og leyfðu leið þinni að birtast þér skýrar en áður.

(skýringar: Catalyst yogi blog eftir Haribhajan Singh)