Vorgleði

SJORE_04092014_MG_7729_PPTökum á móti vorinu bjartsýn og létt í hjarta.

Sex vikna námskeið hefst 4. apríl. Kennt verður mán og mið kl 18.45. Innifalinn aðgangur í opna tíma. Hentar bæði vönum og óvönum iðkendum. 
Námskeiðið byggir á kundalini jóga og hugleiðslu – bæði inni og úti (ef veður leyfir) ásamt fleiru skemmtilegu sem verður fléttað inn í tímana. Ekki er nauðsynlegt að vera með neinn grunn í jóga til að taka þátt.
Hér blöndum við saman nærandi jóga og hugleiðingum um það hvernig við getum fundið jafnvægi og gleði í lífinu – og komið okkur í form bæði andlega og líkamlega fyrir sumarið. Og léttum um leið á uppsafnaðri spennu og streitu eftir langan vetur.

Á námskeiðinu verður áhersla á bæði styrkjandi og jafnvægisgefandi jóga og hugleiðslu. Kundalini jóga er öflugt og umbreytandi form af jóga sem byggir á öndunaræfingum, jógahreyfingum sem hafa markviss áhrif á líkama og huga og styrkja taugakerfi, innkirtlakerfi og ónæmiskerfi, slökun og hugleiðslu. Hugleiðsla gefur okkur samband við hugann, hreinsar undirvitundina og hjálpar okkur að létta á farangrinum sem við burðumst með. Góð slökun eftir jógatíma er oft dýpri en nokkur svefn getur veitt.

Þú verður að því sem þú elskar. Ef þú elskar eitthvað sem er stærra en þú þá finnurðu kraftinn sem býr í þér.” Yogi Bhajan

Vorið er hentugur tími til að hreinsa líkamann og sleppa því sem við þurfum ekki á að halda lengur. Við ætlum að skoða leiðir til að bæta líðan okkar í daglegu lífi og hvernig mataræði og daglegur rytmi getur stutt okkur í að velja það sem nærir okkur og eflir. Við skoðum líka hvernig tilfinningar okkar geta safnast upp í líkamanum og hvernig kundalini jóga getur hjálpað okkur að vinna úr því gamla – að losa um stíflur og hleypa orkuflæðinu af stað eins og vatni í vorleysingum.

Á vorin fæðumst við aðeins upp á nýtt og njóta þess að sjá lífið vakna í kringum okkur. Á þessum vikum ætlum við að taka okkur stund til þess að rækta þessa innri gleði. Í gegnum jóga, dans, gönguíhugun og jóga úti undir berum himni ef veður leyfir, mataræði og lifsstil. Við ætlum líka að skoða hvernig við getum sleppt vetrardoðanum sem stundum vill loða við okkur og hvað það er sem hindrar okkur i að upplifa þessa annars eðlislægu gleði yfir vorinu sem er að vakna.

Kennarar eru Guðrún Darshan og Eyrún Huld Árnadóttir