Tökum á móti vorinu bjartsýn og létt í hjarta.
Á námskeiðinu verður áhersla á bæði styrkjandi og jafnvægisgefandi jóga og hugleiðslu. Kundalini jóga er öflugt og umbreytandi form af jóga sem byggir á öndunaræfingum, jógahreyfingum sem hafa markviss áhrif á líkama og huga og styrkja taugakerfi, innkirtlakerfi og ónæmiskerfi, slökun og hugleiðslu. Hugleiðsla gefur okkur samband við hugann, hreinsar undirvitundina og hjálpar okkur að létta á farangrinum sem við burðumst með. Góð slökun eftir jógatíma er oft dýpri en nokkur svefn getur veitt.
“Þú verður að því sem þú elskar. Ef þú elskar eitthvað sem er stærra en þú þá finnurðu kraftinn sem býr í þér.” Yogi Bhajan
Vorið er hentugur tími til að hreinsa líkamann og sleppa því sem við þurfum ekki á að halda lengur. Við ætlum að skoða leiðir til að bæta líðan okkar í daglegu lífi og hvernig mataræði og daglegur rytmi getur stutt okkur í að velja það sem nærir okkur og eflir. Við skoðum líka hvernig tilfinningar okkar geta safnast upp í líkamanum og hvernig kundalini jóga getur hjálpað okkur að vinna úr því gamla – að losa um stíflur og hleypa orkuflæðinu af stað eins og vatni í vorleysingum.
Kennarar eru Guðrún Darshan og Eyrún Huld Árnadóttir