Lærðu að nýta þér talnaspeki til að öðlast markvissari jógaiðkun og sjálfsrækt. Kundalini jóga er öflug leið sem byggir á öndunaræfingum, eflandi “kríum” eða röðum af æfingum sem hafa markviss áhrif á líkama og huga og efla samband okkar við okkar innri mann. Hugleiðsla er mjög mikilvæg leið til að ná góðu sambandi við hugann og hreinsa undirvitundina – létta á farangrinum sem við burðumst með. Góð slökun eftir jógatíma er oft dýpri en nokkur svefn getur veitt okkur. Á námskeiðinu fá nemendur tæki til að finna út sínar veiku og sterku hliðar út frá talnaspekinni og öðlast þannig markvissari jógaiðkun.
Námskeiðið hentar bæði byrjendum og lengra komnum. Það er ekki kennt á haustönn 2013.
Kennari er Guðrún Darshan.
Líkamarnir tíu: Flest okkar höfum við lært að samsama okkur með líkamanum, þessum snertanlega hluta okkar sem framkvæmir og gerir. Jógafræðin fjalla hins vegar um tíu líkama – tíu víddir innra með okkur sem eru eins og strengir sem við getum lært að stilla og spila á. Þeir geta kennt okkur að skilja okkur sjálf betur, hvað er í ójafnvægi og hvað þarf til að stilla og bæta það sem hefur dottið úr takti innra með okkur. Við getum hugsað þá eins og mismunandi hliðar á demantinum sem erum við sjálf.
Á námskeiðinu ætlum við að fræðast um þessa tíu líkama og um leið um grunnatriði kundalini jóga, gera kríur og hugleiðslur til að virkja hvern og einn þessara þátta í okkur sjálfum og læra að reikna út tölurnar okkar: – m.a. sálartöluna, karmatöluna og leiðina okkar. Sumar þeirra gefa okkur vísbendingu um styrkleika okkar hvers og eins og aðrar um það sem við þurfum að vinna meira í. Út frá því getum við fengið betri tilfinningu fyrir því td hvernig við getum unnið meira markvisst í að styrkja okkur sjálf í gegnum hugleiðslu og sjálfsrækt.
Streita er okkar stærsta vandamál á Vesturlöndum. Kundalini jóga kennir okkur leiðir til að lifa með álagi og áreiti hversdagsins og að hefja okkur upp yfir daglegt amstur með því að nýta okkur háþróaða tækni jóganna. Kundalini jóga styrkir taugar, innkirtla og ónæmiskerfi og gerir okkur sterkari og betur undir það búin að höndla það sem lífið færir okkur.
Nánar um líkamana:
- Sálarlíkaminn er tímalaus – Hann er að finna í öllum okkar frumöflum. Hjartað yfir huga – hann minnir okkur á að láta hjartað ráða ferðinni.
- Neikvæði hugurinn, ver okkur gegn hættu og bendir okkur á vankanta og ótryggar aðstæður. Hann gefur okkur þrána til að tilheyra. Við lendum í erfiðum samböndum og varasömum aðstæðum ef hann er veikur. Ef hann er of sterkur, þá látum við tækifæri ganga okkur úr greipum.
- Jákvæði hugurinn sér jákvæðu hliðarnar á öllu, hefur húmor. Þetta reddast hugurinn. Þessi hugur stendur líka fyrir viljastyrk.
- Hlutlausi hugurinn – hugleiðsluhugurinn. Að hugleiða eflir þennan huga. Hann gerir okkur að góðum hlustanda. Þessi hugur tengist hjartastöð. Ef hann er veikur, þá getur verið erfitt að taka ákvarðanir og manneskjan lendir oft í fórnarlambshlutverki.
- Líkaminn: Kennari, jafnvægi, fórn. Til að styrkja hann þarf að styrkja taugakerfi og innkirtlakerfi.
- Geislabaugurinn (arcline) ver þig fyrir utanaðkomandi áhrifum. Hann er skapandi, sér stundum fram í tímann ef hann er sterkur. Er staðsettur frá eyra til eyra og líka milli geirvarta á konum.
- Ára, rafsegulsviðið- verndar okkur, öryggi, ást, meðaumkvun.
- Prönulíkaminn – hreinleiki, orka, óttaleysi. Flytur stöðugt lífsorkuna inn í líkamana. Allir sjúkdómar byrja á ójafnvægi í prönulíkama. Ef hann er veikur, þá getur þú fundið til stöðugra áhyggja eða síþreytu. Þú reynir að ná í orku úr mat eða örvandi efnum og þú ert óörugg-ur og í vörn.
- Hárfíni líkaminn, subtle body geymir allar minningar og er í beinu sambandi við alheimsorkustöðina. Ef þessi líkami er veikur er auðvelt að plata okkur. Við verðum gróf í tali. Allt sem við höfum ekki hreinsað út úr árunni festist þarna.
- Geislalíkaminn, radiant body – allt eða ekkert, hugrekki, stenst allar hindranir. Ef þessi líkami er veikur, þá höfum við tilhneigingu til að draga okkur í hlé af því að við hræðumst athygli annarra.