Löng gongslökun í dag

Nú er páskafríið afstaðið – vonandi nutuð þið þessarra björtu daga í dymbilvikunni:-)  Ég fór upp í sumarbústað og átti dásamlegar gönguferðir í snjónum með fjölskyldunni og naut þess að láta sólina baða mig.  Ég hugleiddi daglega – það er ómissandi hluti af því að njóta lífsins í mínum huga:-)  Og spilaði “Ólsen – ólsen” við son minn.

Nú fer vorið að bræða ísinn og við að kasta af okkur vetrinum og drunganum. Vorið er góður tími til að hreinsa til í huga og líkama og styrkja þannig friðinn og birtuna innra með okkur svo við getum betur notið sumarsins.

Vorhreinsun: Það eru ýmsar leiðir til að hreinsa. Til dæmis bara með þvi að sleppa einhverju sem er ekki að byggja okkur upp – eins og til dæmis sykri eða kaffi, eða neikvæðni. Nú eða leggja áherslu á hreyfingu og ferskt loft í lungun. Það getur verið ágætt að setja sér einhver tímamörk – til dæmis að sleppa sykri í mánuð:-) Eða borða alltaf grænmetissúpu í kvöldmat í viku og létt í hádeginu og fara í daglega gönguferð. Það getur verið góður stuðningur við hreinsunina að hugleiða. Hugleiðsla er líka besta leiðin sem ég þekki til að hreinsa til í undirvitundinni. Og regluleg jógaiðkun hjálpar að sjálfsögðu mikið til við að halda okkur á sporinu og ná markmiðum okkar.

Í dag er opinn tími í jóga. Í tímanum í dag ætlum við að gera hressandi kríu og fara í langa gong slökun. Og svo endum við á hugleiðslu “Að tengja saman himin og jörð”. Það eru að sjálfsögðu allir velkomnir í frían prufutíma. Nánar um opna tíma.

Comments are closed.