Gleði sem er óháð veðri og vindum

Nú þegar vetur konungur og vorhlákan skiptast á að hrista upp í okkur þá er mikilvægt að hlúa vel að líkamanum svo vorið fari nú vel í okkur og engin kvef sæki að okkur. Við getum gert það með því að borða létt og drekka vel. Líka með því að minnka sykurinn og gefa græna litnum fullt af plássi á diskinum okkar. Sem ætti ekki að vera svo erfitt ef við erum líka dugleg að fara út að ganga í vorloftinu og horfa á græna litinn sem er byrjaður að hressa upp á vetrarfölvann. Allt hjálpar þetta okkur að halda í innra jafnvægi bæði á líkama og huga.

Við eigum öll okkar góðu og slæmu daga. Sumir virðast eiga greiðari aðgang að bjartsýni en aðrir. En sönn gleði snýst ekki um að vera alltaf hamingjusamur eða alltaf í góðu skapi. Við getum hins vegar lært leiðir til að lifa með erfiðleikunum og álaginu – og líka með uppsveiflunum – án þess að láta þær velta okkur á alla kanta. Jóga og hugleiðsla kenna okkur að hlusta eftir þessum djúpa undirtóni sem býr í hjörtum okkar allra. Og bjóða lífið velkomið með öllum sínum upp- og niðursveiflum.

Námskeiðið “Vorgleði” byggir á kundalini jóga og hugleiðslu – bæði inni og úti (ef veður leyfir) ásamt fleiru skemmtilegu sem verður fléttað inn í tímana. Ekki er nauðsynlegt að vera með neinn grunn í jóga til að taka þátt.Það eru svo margir sem tala um þreytu eftir álag vetrarins og alls konar einkenni streitu og spennu.  Hér blöndum við saman nærandi jóga og hugleiðingum um það hvernig við getum fundið jafnvægi og gleði í lífinu – og komið okkur í form bæði andlega og líkamlega fyrir sumarið.

Vorið er hentugur tími til að hreinsa líkamann og sleppa því sem við þurfum ekki á að halda lengur, losa um stíflur og hleypa orkuflæðinu af stað eins og vatni í vorleysingum.  Lesa meira hér

Comments are closed.